RANNSÓKNIR — ÞRÓUNARSTARF — SAMSTARF — FAGLEG UMRÆÐA


1. gr.
Nafn og aðsetur
Heiti félagsins er Félag um menntarannsóknir, skammstafað FUM. Á ensku yrði nafnið Icelandic Educational Research Association (IERA). Að jafnaði er aðsetur félagsins á vinnustað formanns stjórnarinnar.
2. gr.
Markmið
Að efla rannsóknir og þróunarstarf á sviði menntunar á Íslandi með því að:

skapa vettvang fyrir faglega umræðu um rannsóknir og þróunarstarf;
stuðla að útbreiðslu þekkingar á rannsóknum og þróunarstarfi;
efla tengsl og samstarf félaganna;
stuðla að samvinnu við samtök og stofnanir sem sinna uppeldis- og menntamálum hér á landi og erlendis;
efla þekkingu og færni félagsmanna til að leggja stund á rannsóknir á menntamálum;
skapa vettvang fyrir þverfaglegar rannsóknir.
3. gr.
Starfsemi
Upplýsingum til félagsmanna skal miðlað gegnum heimasíðu félagsins. Á henni skal boða til funda, tilkynna um fræðslufundi, ráðstefnur og málþing, veita upplýsingar um gagnlegar slóðir um menntarannsóknir, o.s frv.
4. gr.
Félagsaðild
Aðild að félaginu geta átt einstaklingar sem áhuga hafa á rannsóknum og þróunarstarfi í menntamálum.
5.gr.
Félagsgjöld og fjármál
Aðalfundur ákveður félagsgjöld fyrir eitt ár í senn (kr. 2000.- árið 2002).
Starfs- og reikningsár félagsins er almanaksárið. Félagsgjöld til félagsins skulu greidd fyrir 1. apríl. Formaður félagsins annast fjárreiður félagsins í samráði við gjaldkera þess.
Endurskoðaða reikninga félagsins skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar. Reikningar skulu vera aðgengilegir félagsmönnum á skrifstofu félagsins sjö dögum fyrir aðalfund.
6. gr.
Stjórnskipulag
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Fundurinn kýs félaginu stjórn sem annast málefni þess milli aðalfunda. Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga félagsins. Stjórn félagsins skipar starfsnefndir eftir því sem hún telur ástæðu til.
7. gr.
Félagsstjórn
Stjórn félagsins skipa sex menn, allir kjörnir til tveggja ára. Kjósa skal formann sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum og kýs varaformann, ritara og gjaldkera. Tveir varamenn skulu kosnir til eins árs í senn. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundum ræður atkvæði formanns.
Hætti stjórnarmaður í félaginu á kjörtímabilinu skal varamaður taka sæti hans til næsta aðalfundar, en þá skal kjósa stjórnarmann í stað hans til loka kjörtímabils hans.
Tillögur um stjórnarmenn skulu sendar stjórninni eigi síðar en þremur dögum fyrir aðalfund.
Stjórn skal í upphafi starfsárs setja sér starfsáætlun í samræmi við markmið félagsins. Starfsáætlunina skal birta á heimasíðu félagsins.
8. gr.
Aðalfundur
Aðalfund skal halda eigi síðar en 15. mars ár hvert og skal boða hann með góðum fyrirvara. Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:
Skýrsla stjórnar
Skýrslur nefnda og starfshópa eftir því sem við á
Reikningar félagsins
Lagabreytingar
Ákvörðun félagsgjalda
Stjórnarkjör
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Nefndakjör
Önnur mál
Kosið skal skriflega sé þess óskað. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Aðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað.
9. gr.
Félagsfundur
Almenna félagsfundi skal stjórnin halda um félagsmálefni þegar ástæða þykir til. Til félagsfunda skal boða með tilkynningu til félagsmanna eða auglýsingu.
10. gr.
Aukaaðalfundur
Til aukaaðalfundar skal boðað þegar stjórn félagsins þykir ástæða til eða þegar a.m.k. 50 félagsmenn óska þess skriflega. Á slíkum fundi skal fjallað um störf stjórnar og/eða nefnda félagsins sem annars væri fjallað um á reglulegum aðalfundi félagsins. Til aukaaðalfundar skal boðað með sama hætti og til aðalfundar. Í fundarboði skal geta þess umræðuefnis sem tekið skal fyrir á fundinum. Aukaaðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað. Á aukaaðalfundi skulu aðeins rædd og tekin til umfjöllunar þau mál sem fram koma í fundarboði.
11. gr.
Breytingar á lögum
Tillögur um breytingar á lögum skal senda stjórn félagsins fyrir lok starfsárs og skulu þær lagðar fyrir næsta aðalfund. Fram komnar tillögur og/eða tillögur stjórnar til breytinga á lögum skulu kynntar félagsmönnum í fundarboði. Breyting á lögum öðlast ekki gildi nema hún sé samþykkt með minnst 2/3 hlutum greiddra atkvæða fundarmanna á löglega boðuðum aðalfundi.
12. gr.
Félagsslit
Aðalfundur einn getur slitið félaginu. Með tillögu um félagsslit skal farið sem um breytingu á félagssamþykktum væri að ræða. Við félagsslit skal eignum félagsins ráðstafað í samræmi við markmið félagsins.

Ákvæði til bráðabirgða
Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga skal á stofnfundi félagsins kjósa þrjá stjórnarmenn, formann og tvo meðstjórnendur, til tveggja ára og þrjá til þriggja ára.

Þannig samþykkt á aðalfundi FUM  20.  febrúar 2002.